Search
  • MEMA

Sigurvegarar MEMA 2020

Updated: Dec 15, 2020

Teymi Fjölbrautaskólans í Breiðholti sigraði MEMA nýsköpunarhraðal framhaldsskólanna 2020 með verkefnið Gára. Markmið Gáru er að bæta endurnýtingu pappírs á Íslandi til að draga þannig úr útflutningi á sorpi.Teymið fann leið til að nýta endurunnin pappír með því að prófa sig áfram með eiginleika pappírs. Úr því varð hugmyndin Gára, sem eru hljóðdempandi klæðningar unnar úr endurunnum pappír. Lakshmi Björt Þuríðardóttir Jacob, Katrín Helga Davíðsdóttir, Guðrún Ísafold Hilmarsdóttir og Guðlaugur Hrafn Kristjánsson eru höfundar verkefnisins en þau hafa staðið í ströngu við að þróa frumgerð að hugmyndinni í miðjum heimsfaraldri. Á Tæknispretti MEMA fann teymið ýmsar leiðir til að koma sér af stað með fyrstu frumgerð. Þau fundu gamlan töfrasprota til að hakka niður pappír, og náðu að gera ýmsar prófanir á ólíkum pappír og eiginleikum. Teymið mætti því vel undirbúið í Fab Lab Reykjavík undir lok sprettsins þar sem þau náðu að ljúka við frumgerð að Gáru.
Sautján lausnum var skilað inn til dómnefndar MEMA 2020 og við tók ströng yfirferð verkefna. Í öðru sæti var teymi úr Tækniskólanum með Neyðarhnappin Björg, hnappinn er hægt að nota til að stuðla að öryggi einstaklinga sem búa við heimilisofbeldi. Teymi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð hlaut þriðja sætið fyrir hugmyndina Rykhettan, þar er lagt til að ljósastaurar verði húðaðir með efninu Sunspace til að draga úr svifryksmengun.


MEMA hraðallinn ákveður á hverri önn þema út frá Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, en áskorunin sem nú varð fyrir valinu var tengt markmiði 11, Sjálfbærar borgir og samfélög. Gára styður við heimsmarkmiðið með nýtingu hringrásarhagkerfisins við framleiðslu vörunnar. Allir í sigur teyminu fengu SAMSUNG S20 FE síma, niðurfellingu á innritunargjaldi til náms í Háskóla Íslands, annað sæti hlaut SAMSUNG BUDS+ heyrnatól, þriðja sæti fékk í verðlaun gjafakort frá Reykjavík escape og vistvænar nytjavörur frá Vistveru. Allir þátttakendur fengu bókina Toppstöðin í verðlaun.


Nánar má lesa um verkefnin á Facebook síðu MEMA

Hægt er að sjá meira um lokahófið hér!


#MEMA2020

46 views0 comments